Bókasafn Reykjanesbæjar kynnir !
Bókasafn Reykjanesbæjar kynnir !
Laugardagar eru fjölskyldudagar á Bókasafninu. Auk þúsunda bóka er dótakista tekin fram og hægt er að lesa og leika með þroskandi leikföng.
Spilum saman: Einu sinni í mánuði eru hin ýmsu borðspil tekin fram og fjölskyldur hvattar til að mæta og spila saman.
Litum saman: Einn laugardag í mánuði eru fjölbreyttar litabækur, blöð og litir í boði fyrir alla fjölskylduna. Það getur haft hugleiðandi áhrif að lita.
Notaleg sögustund með Höllu Karen: Síðasta laugardag hvers mánaðar kl. 11.30 les Halla Karen og syngur fyrir börn og fullorðna. Halla Karen Guðjónsdóttir syngur og segir sögur á leikrænan hátt. Sögustund Höllu Karenar er með vinsælli viðburðum í bókasafninu og alltaf mikil gleði hjá yngstu kynslóðinni.
Foreldramorgnar: Á fimmtudögum kl. 11 eru Foreldramorgnar í Bókasafni Reykjanesbæjar. Boðið er upp á fræðsluerindi einu sinni í mánuði og notalegt spjall hina fimmtudagana. Öll fræðsluerindi tengjast foreldrahlutverkinu og barnauppeldi á einhvern hátt og eru mæður og feður ungra barna sem og verðandi foreldrar hjartanlega velkomin. Foreldramorgnar hafa verið mjög vinsælir meðal foreldra í fæðingarorlofi.
Tungumálakaffi: Sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum verða tilbúnir í spjall um daginn og veginn, málefni líðandi stundar og passa sig á að tala íslensku allan tímann. Hópurinn hittist á þriðjudögum kl. 10 í vetur.
Þetta og fleiri viðburðir eru í boði í allan vetur 😊 Aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.
Eldri borgarar, börn og unglingar 18 ára og yngri fá ókeypis skírteini í bókasafninu. Aðrir greiða 2.350 kr. árgjald.
Frekari upplýsingar: sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn og Bókasafn Reykjanesbæjar á Facebook og Instagram